Um hvert manntal

1703

Manntalið 1703

Ákvörðun um töku manntals 1703 er sprottin af slæmu efnahagsástandi á Íslandi á 17. öld og stöðugum harðindum í lok aldarinnar sem leiddi af sér afar bága stöðu landsmanna. Vegna þessa voru þeir Árni Magnússon prófessor og Páll Vídalín varalögmaður valdir til þess að rannsaka hagi landsins. Fyrirmæli um töku manntals fengu Árni og Páll í maí 1702. Í október sendu þeir nákvæm fyrirmæli til allra sýslumanna. Mælt var fyrir um að telja allar fjölskyldur og heimilisfólk og hverjum bæ, skrá skyldi ómaga sérstaklega og flakkara átti að skrá laugardaginn fyrir páska 1703, til þess að þeir yrðu ekki taldir oftar en einu sinni.

Sýslumenn fólu hreppstjórum sjálfa töku manntalsins. Manntalinu var skilað til Árna og Páls á Alþingi í júní 1703 og síðan sent til Kaupmannahafnar. Manntalsskýrslurnar voru fluttar til Íslands árið 1921 og samkvæmt samningi milli Danmerkur og Íslands árið 1927 urðu þær eign Íslands. Manntalið var gefið út af Hagstofu Íslands á árunum 1924-1947.

Manntalið árið 1703 er að fullu varðveitt. Það fyrsta manntal sem nær til allra íbúa í heilu landi þar sem getið er nafns, aldurs og þjóðfélagsstöðu allra íbúanna. Hagstofa Íslands lét skanna inn hina prentuðu gerð manntalsins 1703 og breyta á textaskrá. Þá skrá lét Hagstofan Þjóðskjalasafni Íslands í té og á þakkir skyldar fyrir. Þjóðskjalasafn hefur gert ýmsar lagfæringar á skránni. Enn má þó að bæta vefútgáfu þessa manntals og að því er stefnt.


Sýnishorn frumrits

1816

Manntalið 1816

Hinn 23. mars 1815 ritaði Geir biskup Vídalín bréf til allra prófasta á Íslandi. Bréfinu fylgdi tilskipun kansellísins í Kaupmannahöfn frá 11. desember 1812 sem innihélt reglur um færslu prestþjónustubóka og form þeirra. Geir biskup lagði fyrir prófastana að afla sér bóka, sem fullnægðu tilskipuninni. Prestþjónustubækur skyldu vera í arkarbroti (folio) og færa átti prestverkin í tvær bækur samhliða. Önnur bókin átti að ná yfir prestakallið allt og vera í vörslu prestsins en hin átti að vera í kirkju hverrar sóknar eða í vörslu kirkjufjárhaldsmanns (djáknabók). Fremst í þá bók átti að færa fólkstal sóknarbarna fyrsta sunnudag í aðventu 1816. Í fólkstalinu áttu að koma fram upplýsingar um nöfn fólks, stöðu, aldur og fæðingarstað, sem var nýmæli.

Flestir prestar fóru eftir biskups boðskap en aðrir höfðu hann að engu og þrátt fyrir fyrirmæli biskupsins um dagsetningu skráðu sumir prestar fólkstalið árið 1816, fáeinir árið 1817 og nokkrir síðar. Framkvæmd manntalsins á sínum tíma fór því ekki alveg eftir fyrirætlun biskups. Í tímans rás hafa nokkrar prestþjónustubækur glatast af ýmsum ástæðum.

Á fimmta áratug síðustu aldar fékk Ættfræðifélagið áhuga á að gefa út þetta safn fólkstala, m.a. vegna þess að í því voru upplýsingar um fæðingarstaði sem félagið áleit mikilvægar. Frú Marta Valgerður Jónsdóttir (1889-1969) hafði þá gert afrit þeirra fólkstala, sem höfðu varðveist, og samið, eftir tiltækum heimildum, önnur í stað þeirra sem höfðu glatast. Aðrir ættfræðingar lögðu einnig hönd á plóg við uppskriftir og endurgerð fólkstala. Þetta safn var þannig prentað í sex heftum á árunum 1947-1974 sem Manntalið 1816. Í tveimur síðustu heftunum var reyndar horfið frá því að semja manntöl í stað þeirra sem glatast höfðu, en brugðið á það ráð að prenta venjuleg sóknarmannatöl í staðinn, eftir því sem þau voru tiltæk. Til þess að fylla upp í sem flest skörð þurfti t.d. að seilast allt aftur til ársinis 1802 eftir sóknarmannatali úr Sauðanessókn og fram til ársins 1829 eftir sálnaregistri úr Knappstaðasókn. Fáeinar sóknir vantar þar sem sóknarmannatöl voru ekki tiltæk, þ.e. Vatnsfjarðarsókn og Kirkjubólssókn í Ísafjarðarsýslu og Flugumýrarsókn og Fellssókn í Skagafirði. Engu að síður eru ríflega þrír fjórðu hlutar þessa „manntals“ Ættfræðifélagsins kenndir við árið 1816 og rúmlega 96% við árin 1815-1820, þannig að ársetning Manntalsins 1816 verður að teljast nærri lagi í það heila tekið.

Hér er Manntalið 1816 birt í vefútgáfu eftir texta prentuðu heftanna. Undir fyrirsögninni Athugasemdir eru, eftir því sem við á, birtar leiðréttingar og viðaukar, sem komu í sjötta heftinu auk neðanmálsgreina og aftanmálsgreina, einnig úr prentuðu útgáfunni. Aðrar athugasemdir eru einnig birtar til fróðleiks. Fyrir framan hverja slíka athugasemd er tala í hornklofa [n], sem vísar til uppruna athugasemdarinnar samkvæmt þessari töflu:

1. Leiðréttingar og viðaukar á bls. 1065 í prentaða manntalinu.
2. Leiðréttingar frá Eyjólfi Jónssyni verðlagseftirlitsmanni á Flateyri á bls. 1065-1067 í prentaða manntalinu.
3. Leiðréttingar frá Þórarni Einarssyni, fyrrverandi kennara, við manntal í Barðastrandarsýslu. Eru á bls. 1067-1069 í prentaða manntalinu.
4. Neðanmálsgreinar í prentaða manntalinu.
5. Aftanmálsgreinar í prentaða manntalinu.
7. Aðrar athugasemdir í prentaða manntalinu.
8. Handskrifaðar leiðréttingar/athugasemdir í eintaki ÞÍ. af prentaða manntalinu.
9. Athugasemdir skrásetjara, sem flestar lúta að birtingu upplýsinga í manntalinu.
10. Viðbætur Mörtu Valgerðar Jónsdóttur.

Ítarlegri upplýsingar um Manntalið 1816 má lesa í formála Guðna Jónssonar í fyrsta hefti manntalsins, bls. I-III, og eftirmála Bjarna Vilhjálmssonar í sjötta hefti, bls. 1071-1076, en stuðst hefur verið við þær heimildir við samantekt þessa texta.


1835

Manntalið 1835

Manntal var tekið hér á landi árið 1835 og var það hliðstæða þess manntals sem í Danmörku í febrúar 1834. Þann 3. júní 1834 eru biskupnum yfir Íslandi, stiftamtmanni og amtmönnum send tilmæli (reskript) um almennt manntal á Íslandi og var það hluti af öflun upplýsinga um fólksfjölda og atvinnuskiptingu í nýlendum Dana. Skyldu biskup og stiftamtmaður starfa saman að manntali hér á landi. Manntalið átti helst að fara fram á sama degi, þegar stiftsyfirvöldum þótt hentast. Fyrir valinu var 2. febrúar 1835. Áttu sóknarprestar með aðstoð hreppstjóra, eða annarra tilkvaddra, að annast framkvæmd talningar og úrvinnslu. Hreppstjórar skrifuðu undir manntalslistana en prestar færðu töflurnar. Sumir prestar staðfesta að töflurnar hafi verið gerðar með samanburði við sálnaregistur. Dæmi eru um að prestar staðfesti einnig að manntalslistarnir komi heim og saman við sálnaregistur. Manntalsgögnin voru varðveitt í Danmörku. En 1904 var manntalið afhent Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn hét þá, til varðveislu og hefur manntalið verið geymt þar síðan.

Manntalið 1835 er varðveitt í heild sinni. Það var vélritað eftir frumskýrslunum til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns á 7. áratug 20. aldar. Það hefur ekki verið prentað. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerðinni.


Sýnishorn frumrits

1840

Manntalið 1840

Árið 1840 fór fram manntal í danska ríkinu sem einnig náði til hjálendna þess norður í höfum. Verkstjórn talningarinnar á Íslandi var í höndum stiftsyfirvalda, biskups og stiftamtmanns. Manntalstökudagur var 2. nóvember. Báru sóknarprestar og aðstoðarmenn þeirra þó hitann og þungann af talningunni en fólk var talið á grundvelli sóknar. Að talningu lokinni unnu sóknarprestar, sýslumenn og amtmenn upplýsingar úr talningagögnum í sérstakar töflur sem fylgdu með fyrirmælum manntalsins. Skráningargögnin voru síðan send til Tabelkomission í Kaupmannahöfn, deildar innan rentukammers er hafði hagskýrslugerð í danska ríkinu á forræði sínu. Árið 1904 var manntalið afhent Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn hét þá, til varðveislu og hefur manntalið verið geymt þar síðan.

Manntalið 1840 er varðveitt í heild. Það var vélritað eftir frumskýrslunum til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns á 7. áratug 20. aldar. Það hefur ekki verið prentað. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerðinni.


Sýnishorn frumrits

1845

Manntal 1845

Manntal fram í danska ríkinu og hjálendum þess norður í höfum árið 1845. Líkt og áður var verkstjórn manntalsins á Íslandi í höndum stiftsyfirvalda, en sóknarprestar og aðstoðarmenn þeirra báru hitann og þungann af skráningunni í hverri sókn. Var fyrirskipað að talning ætti að miðast við 2. nóvember en sökum aðstæðna á Íslandi fengu talningarmenn nokkra mánuði til verksins. Eftir að talningu var lokið skráðu sóknarprestar, sýslumenn og amtmenn ýmsar upplýsingar upp úr manntalsgögnum á tiltekin eyðublöð er fylgdu með fyrirmælum danskra stjórnvalda. Að endingu voru gögnin send til Tabelkomission rentukammersins í Kaupmannahöfn sem þar voru varðveitt næstu áratugina. Manntalið 1845 var síðan sent til Íslands árið 1904 til varðveislu í Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn nefndist þá, og hafa gögnin verið geymd þar síðan.

Manntalið 1845 er varðveitt í heild sinni. Það var vélritað eftir frumskýrslunum til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns á 7. áratug 20. aldar. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerðinni. Á árunum 1982-1985 gaf Ættfræðifélagið manntalið út í bókarformi með styrk frá Þjóðhátíðarsjóði og ríkissjóði Íslands.


Sýnishorn frumrits

1850

Manntalið 1850

Manntalið á Íslandi 1850 er það fyrsta sem tekið er eftir stjórnkerfisbreytingar í Danmörku í kjölfar afnám einveldis árið 1848. Breytingar urðu því á framkvæmd þess miðað við fyrri talningar. Nú skyldu prófastar standa skil á skráningargögnum gagnvart hinni nýju Íslensku stjórnardeild í Kaupmannahöfn og verkstýra þar með sóknarprestum í sínu umdæmi við talninguna. Í fyrirmælum til klerka var gert ráð fyrir að manntalið færi fram um sumarið. Manntalstökudagur var 1. febrúar. Að talningu lokinni unnu sóknarprestar upplýsingar úr skráningargögnum upplýsingar í sérstakar töflur líkt og áður. Prófastar söfnuðu síðan gögnunum frá sóknarprestum, yfirfóru þau og sendu síðan til Danmerkur. Manntalið 1850 var síðan varðveitt í Statistisk Bureau, undanfara dönsku hagstofunnar, allt til þess dags er það var afhent Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn nefndist þá, til varðveislu árið 1904. Hafa gögnin verið þar æ síðan.

Manntalið 1850 er varðveitt í heild. Það var vélritað eftir frumskýrslunum til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns á 7. áratug 20. aldar. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerðinni.


Sýnishorn frumrits

1855

Manntalið 1855

Manntalið 1855 á Íslandi átti að miðast við mannfjölda í landinu 1. október það ár. Manntalsgerð á Íslandi var áfram hluti af manntalsgerð í danska ríkinu. Prófastar skyldu standa skil á manntalsgögnum gagnvart Íslensku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn og verkstýrðu þeir sóknarprestum sínum sem ásamt aðstoðarmönnum, báru hitann og þungann af manntalsgerðinni. Að vinnu sinni lokinni, unnu sóknarprestar upplýsingar úr manntalsgögnum í tilteknar töflur er fylgdu með fyrirmælum danskra stjórnvalda. Söfnuðu prófastar öllum manntalsgögnum til sín frá sóknarprestum til yfirferðar og sendu síðan til Kaupmannahafnar. Manntalið 1855 var síðan í vörslu Statistisk Bureau, undanfara dönsku hagstofunnar, um nokkurra áratuga skeið. Árið 1904 var manntalið 1855 afhent Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn nefndist þá, til varðveislu og hefur manntalið verið geymt þar síðan.

Manntalið 1855 er varðveitt í heild sinni. Það birtist hér skráð eftir upprunalegu talningaskýrslunum.


Sýnishorn frumrits

1860

Manntalið 1860

Manntal fór fram á Íslandi í október 1860 og var talið miðað við fyrsta þess mánaðar. Talningin var hluti af manntalsgerð sem fram fór í danska ríkinu á sama ári. Prófastar báru ábyrgð á talningu í sínu umdæmi gagnvart dönskum stjórnvöldum og fólu þeir sóknarprestum sínum umsjón með talningu í hverri sókn. Prestar kölluðu síðan til liðs við sig aðstoðarmenn sem sáu um skráningu íbúa sóknarinnar. Að talningu lokinni unnu prestar tilteknar upplýsingar úr talningagögnum sem skráðar voru í þar til gerðar töflur sem fylgdu með fyrirmælum manntalsins. Prófastar söfnuðu síðan öllum manntalsgögnum úr umdæmi sínu, yfirfóru, og sendu loks út til Íslensku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn. Manntalið 1860 var síðan í vörslu Statistisk Bureau, undanfara dönsku hagstofunnar, um nokkurra áratuga skeið. Árið 1904 var manntalið afhent Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn hét þá, til varðveislu og hefur manntalið verið geymt þar síðan.

Manntalið 1860 er varðveitt í heild sinni. Það var vélritað eftir frumskýrslunum til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns á 7. áratug 20. aldar. Það hefur ekki verið prentað. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerðinni.


Sýnishorn frumrits

1870

Manntalið 1870

Manntalið á Íslandi 1870 fór fram í október en það átti að miðast við fólksfjölda í landinu 1. október það ár. Breyting hafði orðið á tíðni manntalsgerðar í danska ríkinu en talning fór nú fram á tíu ára fresti í stað fimm ára eins og verið hafði. Áfram voru prófastar ábyrgir gagnvart dönskum stjórnvöldum með manntalsgerð í sínu umdæmi og fólu sóknarprestum umsjón talningar í sinni sókn. Kallaði sóknarprestur aðstoðarmenn til liðs við sig sem sáu um talninguna. Að henni lokinni unnu prestar upplýsingar úr talningarskýrslum sem þeir skráðu í þar til gerðar töflur er fylgdu með fyrirmælum danskra stjórnvalda. Prófastar fengu loks gögn frá prestum í prófastdæmi sínu til yfirferðar sem að endingu voru send til Kaupmannahafnar til varðveislu. Manntalið 1870 var geymt í Statistisk Bureau, undanfara dönsku hagstofunnar, um nokkurra áratuga skeið. Árið 1904 var manntalið afhent Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn hét þá, til varðveislu og hefur manntalið verið geymt þar síðan.

Manntalið er ekki varðveitt í heild sinni því manntalsskýrslur úr Eyjafjarðar-, Þingeyjar- og Múlasýslum glötuðust í Kaupmannahöfn. Manntalið 1870 var vélritað eftir frumskýrslunum til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns á 7. áratug 20. aldar. Það hefur ekki verið prentað. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerðinni.


Sýnishorn frumrits

1880

Manntalið 1880

Manntal fór fram á Íslandi í október 1880. Eins og í fyrri manntölum var mannfjöldi miðaður við 1. október. Þegar hér var komið sögu hafði embætti landshöfðingja verið stofnað á Íslandi í kjölfar setningu stöðulaganna 1871 og fengu prófastar fyrirmæli frá landshöfðingjanum um manntalsgerðina. Áfram stóðu prófastar skil á talningaskýrslum úr sínu umdæmi og fólu þeir sóknarprestum umsjón með talningu í sóknum sínum. Fengu prestar aðstoðarmenn til liðs við sig sem önnuðust talninguna. Að henni lokinni tóku prestar saman upplýsingar úr talningaskýrslum sóknar sinnar sem þeir notuðu til að skrá í töflur sem fylgdu með reglum manntalsins. Prófastar fengu síðan öll talningagögn send til sín úr prófastsdæminu og var gert að yfirfara þau. Að lokum sendu þeir öll gögn til landshöfðingja sem skilaði þeim til danskra stjórnvalda. Manntalið 1880 var varðveitt í Statistiske Bureau uns það var afhent í heild sinni Landsskjalasafni Íslands, fyrirrennara Þjóðskjalasafns, árið 1904. Þar hefur manntalið verið geymt síðan.

Manntalið 1880 var, eins og mörg önnur manntöl, vélritað eftir frumskýrslunum á árunum 1960-1980 til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafnsins. Það hefur ekki verið prentað. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerð manntalsins.


Sýnishorn frumrits

1890

Manntalið 1890

Manntal á Íslandi 1890 fór fram 1. nóvember. Landshöfðingi setti próföstum fyrir líkt og árið 1880 en verkferillinn var álíka og við manntalstökuna tíu árum áður. Þannig var fólk talið eftir sóknum og fengu sóknarprestar til liðs við sig aðstoðarmenn til að annast talninguna. Prestar unnu síðan upplýsingar úr talningarskýrslum aðstoðarmanna sinna og skráðu í töflur er fylgdu með fyrirmælum landshöfðingja. Sóknarprestar sendu talningargögn til prófasta að vinnu sinni lokinni, sem yfirfóru þau, og sendu til landshöfðingja að lokum. Þaðan voru gögnin send dönskum stjórnvöldum til frekari úrvinnslu. Manntalið 1890 var geymt fyrstu árin innan veggja Statistisk Bureau, undanfara dönsku hagstofunnar, en var afhent að stórum hluta Landsskjalasafni Íslands, eins og Þjóðskjalasafn hét þá, ásamt öðrum manntölum, árið 1904. Afhendingu lauk árið eftir þegar talningarskýrslur frá Suður-Múlasýsla bárust safninu. Hefur manntalið verið varðveitt þar síðan.

Manntalið 1890 er varðveitt í heild sinni. Það var vélritað eftir frumskýrslunum til notkunar á lestrarsal Þjóðskjalasafns á 7. áratug 20. aldar. Það hefur ekki verið prentað. Vefútgáfan er gerð eftir vélrituðu gerðinni.


Sýnishorn frumrits

1901

Manntalið 1901

Manntal var tekið á Íslandi árið 1901 og var talning miðuð við 1. nóvember líkt og ellefu árum áður. Landshöfðingi fyrirskipaði manntalstökuna og setti prófasta og sóknarpresta til verksins. Fengu sóknarprestar í lið með sér aðstoðarmenn sem sáu um talninguna. Talið var í sóknum og fjórum bæjum, Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Bæjarstjóri í hverjum bæ gekk í hlutverk sóknarprests við skráningu. Að talningu lokinni kom það í hlut sóknarpresta að vinna úr talningaskýrslum upplýsingar um íbúa sóknarinnar samkvæmt fyrirmælum um töku manntalsins. Bæjarstjórum var ekki ætlað að vinna slíka úrvinnslu heldur koma gögnunum beint til landshöfðingja. Prófastar stóðu loks skil á öllum gögnum manntalsins frá sóknarprestum í sínu prófastsdæmi til landshöfðingja. Manntalið 1901 hefur verið varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands síðan dönsk stjórnvöld afhentu safninu það árið 1928.

Manntalið 1901 er varðveitt í heild sinni. Það birtist hér að mestu skráð eftir upprunalegu talningaskýrslunum. Það hefur ekki verið gefið út á prenti.


Sýnishorn frumrits

1910

Manntalið 1910

Manntalið 1910 á Íslandi er það fyrsta sem ekki laut yfirstjórn danskra yfirvalda. Ákveðið var með þingsályktunartillögu á Alþingi árið á undan að manntal skyldi tekið í landinu og var stjórnarráðinu falin framkvæmd þess. Voru fyrri vinnubrögð manntalsgerðar á Íslandi viðhöfð og var talið, eins og níu árum áður, í sóknum en einnig í nokkrum bæjum. Manntal var þó að þessu sinni miðað við 1. desember en hafði áður verið 1. nóvember. Sóknarprestar skyldu bera ábyrgð á talningu og fengu til liðs við sig aðstoðarmenn. Bæjarstjórnir sáu hins vegar um skráningu í bæjum og nutu einnig liðsinni aðstoðarmanna. Prófastar sáu síðan um skil sóknarpresta á manntalsgögnum til Stjórnarráðsins meðan bæjarstjórnir sendu gögn milliliðalaust til þess. Eftir að embættismenn Stjórnarráðsins höfðu lokið vinnu sinnu við manntalið var því komið til varðveislu á Þjóðskjalasafni þar sem það hefur verið geymt æ síðan.

Manntalið 1910 er varðveitt í heild sinni. Sá hluti þess sem hér birtist nú er skráður eftir upprunalegu talningaskýrslunum. Á árunum 1994-2003 gaf Ættfræðifélagið út hluta manntalsins í bókarformi í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands og Erfðafræðinefnd.


Sýnishorn frumrits

1920

Manntalið 1920

Lög um manntal á Íslandi voru sett á Alþingi í febrúar árið 1920 og staðfest af konungi 18. maí sama ár. Hafði hagstofustjóri samið lagafrumvarpið.

Lagasetningin tók mið af því að manntalið færi fram á einum degi og þá þyrfti mikinn fjölda teljara. þótti heppilegast að slá því föstu með lögum að menn gætu ekki skorast undan teljarastarfi, þá gætu hinir hæfustu ekki skorast undan.

Lögin ákváðu að ár, sem ártalið endaði á 0, skyldi taka almennt manntal um allt land. Færi það það fram 1. desember eða annan dag sem konungur ákvæði. Hagstofa Íslands skyldi gera fyrirmyndir að eyðublöðum undir manntalsskrárnar. Á eyðublöðunum undir manntalsskrárnar skyldi tilgreina fullt nafn hvers manns, fæðingarár og dag, fæðingarstað, atvinnu og annað það sem Hagstofan ákvæði í hvert sinn í samráði við þar til kjörna nefnd manna.

Í lögunum voru aðeins talin upp atriði sem sjálfsagt virtist að spyrja um við öll manntöl. Ástæður fyrir öðrum spurningum gætu verið breytilegar.

Manntalið 1920 er varðveitt í heild sinni, en hefur ekki verið gefið út á prenti. Vefútgáfa þessi er gerð eftir frumskýrslum manntalsins.


Sýnishorn frumrits